logo

Samstarf Slippsins Akureyri og Grænafls ehf. í orkuskiptum smábáta

29. september 2024

Samstarfssamningur hefur verið undirritaður milli Slippsins Akureyri og Grænafls ehf. á Siglufirði um þróunarverkefni í orkuskiptum smábáta þar sem markmiðið er að núverandi vélbúnaði fiskibáta sem brenna olíu verði skipt út og í hans stað komi rafmagnsbúnaður eða blendingsvélbúnaður (hybrid). 

Samstarfssamningur hefur verið undirritaður milli Slippsins Akureyri og Grænafls ehf. á Siglufirði um þróunarverkefni í orkuskiptum smábáta þar sem markmiðið er að núverandi vélbúnaði fiskibáta sem brenna olíu verði skipt út og í hans stað komi rafmagnsbúnaður eða blendingsvélbúnaður (hybrid). Grænafl ehf. hefur á undanförnum misserum unnið að verkefninu með framleiðendum slíks búnaðar í Suður-Kóreu og er samstarfssamningurinn við Slippinn Akureyri liður í viljayfirlýsingu sem er fyrirliggjandi og Korean Maritime Institute leiðir fyrir hönd kóreskra samstarfsaðila. 

Samstarfið við Slippinn Akureyri stór áfangi
Kolbeinn Óttarsson Proppé, framkvæmdastjóri Grænafls ehf., segir það stóran áfanga fyrir verkefnið að fá Slippinn Akureyri að borðinu með þá sérfræðiþekkingu og verkkunnáttu sem fyrirtækið búi yfir. Áformað er að í vetur verði unnið að breytingum á fyrstu tveimur bátunum, annars vegar báti sem að fullu verði knúinn rafmagni og hins vegar báti með blendingsvélbúnaði. 
„Öllum er ljóst að tími olíubrennslu mun líða undir lok á næstu árum og áratugum og orkuskipti munu verða í fiskibátum og skipum líkt og öðrum atvinnugreinum. Þess vegna er fagnaðarefni að fá til liðs við okkur samstarfsaðila hér heima á Íslandi í því verkefni okkar að hrinda af stað orkuskiptum í minni bátum. Og ekki síst skiptir miklu máli fyrir okkur að fá til samstarfs reynslumikið fyrirtæki á skipaþjónustusviðinu, líkt og Slippurinn Akureyri er,“ segir Kolbeinn. 
Von er á sendinefnd frá samstarfsaðilunum í Suður-Kóreu í október. Í þeirri heimsókn er áformað að undirbúa með starfsmönnum Grænafls og Slippsins Akureyri hvernig þróunarvinnunni í verkefninu verður háttað í vetur. Kolbeinn segir að þegar kemur að hinum eiginlegu breytingum á bátunum komi starfsmenn frá Suður-Kóreu til að vinna með íslensku fyrirtækjunum tveimur.
„Okkar draumur er að sjá þessa tvo fyrstu báta komna á sjó snemma næsta sumar og vonandi rætist hann,“ segir Kolbeinn. 

Hluti af framtíðinni
Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins Akureyri, segir verkefnið áhugavert fyrir fyrirtækið og orkuskiptin hluta þeirrar framtíðar sem við blasi í fiskiskipaútgerð á Íslandi og um allan heim.
„Við höfum yfir að ráða mannauði, aðstöðu og sérþekkingu í öllum þáttum skipaþjónustu og viljum vera virkir þátttakendur í orkuskiptum í sjávarútvegi. Þarna fáum við tækifæri til að fylgja slíku þróunarverkefni frá grunni í rafvæðingu smábáta, sem er mikilvægt fyrir uppbyggingu þekkingar hér á landi og starfa innanlands á þessu sviði orkuskipta. Um leið tökum við því tækifæri fagnandi að geta með þessum hætti stutt með okkar reynslu og aðstöðu við bakið á því nýsköpunar- og þróunarfyrirtæki á okkar nærsvæði sem Grænafl ehf. á Siglufirði er,“ segir Páll en að hans mati blasir við að til framtíðar muni vélar og vélbúnaður verða knúin blandaðri orkugjöfum en er í dag. Kröfur umheimsins séu að breytast og áherslur á endurnýjanlega orkugjafa hafi aukist verulega. Sú staðreynd muni knýja fram breytingar á aflgjöfum. 
„Þróunin er víða hafin og við erum nú til dæmis nú þegar í þróunarverkefni í stærra skipi þar sem er verið að reyna nýja orkugjafa. Verkefnið með Grænafli fyrir smábátaflotann er þróun í sömu átt. Þetta er hluti af framtíðinni,“ segir Páll.

6. janúar 2025
21. desember 2024
Súlur stálgrindarhús ehf., dótturfélag Slippsins Akureyri ehf., hefur lokað nýrri vélaskemmu sem fyrirtækið reisir fyrir Akureyrarbæ á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Um er að ræða 800 fermetra hús að grunnfleti en því til viðbótar er starfsmannaaðstaða á tveimur hæðum í húsinu og heildargólfflötur er því um 1000 fermetrar. Samhliða lokafrágangi utanhúss hefst vinna við innahússfrágang strax eftir áramót. Krefjandi aðstæður í Hlíðarfjalli Súlur stálgrindarhús ehf. hefur með höndum allt stálvirki framkvæmdarinnar, þ.e. húsið sjálft frágengið með klæðningum, hurðum, gluggum og öðru tilheyrandi. Húsið er vottuð framleiðsla frá Kína og hófst uppsetning í september síðastliðnum. Kristján H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlna stálgrindarhúsa ehf., segir þetta stóran áfanga en þetta er jafnframt fyrsta húsið sem fyrirtækið reisir frá grunni. „Af ýmsum ástæðum, tíðarfari í vor og fleiru, hófst vinna annarra verktaka við undirstöður ekki fyrr en komið var fram í júní og því gátum við ekki byrjað á uppsetningu hússins fyrr en í september. Aðstæður fyrir svona framkvæmd eru mjög krefjandi í Hlíðarfjalli og mjög algengt að hér niðri í bæ sé logn en stífur vindur á sama tíma í Hlíðarfjalli og ekki hægt að vinna með krana og við hífingar eins og svona framkvæmd krefst. En þrátt fyrir frátafir náum við að loka húsinu á þeim tíma sem við áætluðum þegar við hófumst handa í september og ég er mjög ánægður með það. Sú áætlun hefði ekki gengið eftir nema vegna þess samhenta og öfluga starfsmannahóps sem við erum með og þess baklands sem við höfum á öllum fagsviðum málmiðnaðar hjá Slippnum,“ segir Kristján. Lokafrágangur við glugga, flasningar og þess háttar verður strax eftir áramót og mun ljúka í janúar en Kristján segir að bíða þurfi þess til næsta sumars að verktaki við uppsteypu ljúki við að steypa undirstöður fyrir stiga og svalir, sem verða þá síðustu stáleiningarnar sem húsinu tilheyra. Verður bylting fyrir skíðasvæðið Kristján Snorrason, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ, segir að nýja vélaskemman komi til með að breyta miklu fyrir starfsmenn og starfsemina í Hlíðarfjalli. „Með tilkomu hússins verður hægt að geyma alla fjóra troðara skíðasvæðisins innandyra en á gamla verkstæðinu var aðeins hægt að hafa tvo troðara inni í einu. Húsið er líka staðsett nær skíðasvæðinu sjálfu og greiðari leið fyrir troðarana beint á skíðasvæðið, auk þess sem þeir eru þá ekki að þvera umferð skíðafólks eins og hefur verið. Starfsmannaaðstaða er á efri hæð í húsinu og þangað kemur skíðagæslan til með að flytjast í húsið, þ.e. vöktun á lyftunum og svæðinu í heild. Húsið er þannig staðsett að úr því er mun betra að hafa yfirsýn á svæðið en úr skíðaskálanum þar sem eftirlitið hefur verið,“ segir Kristján. Hann segist ekki reikna með að nýja húsið verði að fullu tekið í notkun á þessum skíðavetri en áhersla verði lögð á að geta sem fyrst notað húsið til að hýsa troðarana.
18. desember 2024
Um daginn auglýstum við sérstakt tilboð fyrir allar DNG R1 færavindur keyptar árið 2022 eða síðar. Eigendur þessara færavinda geta fengið hugbúnaðaruppfærslu og yfirferð án endurgjalds. Uppfærslan inniheldur umfangsmiklar endurbætur sem auka bæði notendaupplifun og áreiðanleika. Viðbrögðin hafa verið frábær, og nú þegar hafa margir nýtt sér þetta tækifæri. Stór hluti þessara færavinda er þegar kominn í þjónustuferlið hjá okkur, þar sem hugbúnaður er uppfærður og tækin yfirfarin af fagfólki. Þetta boð gildir fram á næsta ár, nánar tiltekið til 15. apríl 2024. Við hvetjum alla eigendur R1 færavinda til að nýta sér þessa þjónustu. Hér að neðan má sjá mynd af færavindum í þjónustuferlinu okkar.
Árni F. Antonsson, skipasmiður og verkstjóri hjá Slippnum Akureyri
byrjaði 14 ára hjá fyrirtækinu og
18. desember 2024
Árni F. Antonsson, skipasmiður og verkstjóri hjá Slippnum Akureyri byrjaði 14 ára hjá fyrirtækinu og hefur stýrt upptöku á um 3000 skipum og bátum síðustu þrjá áratugina. Hann spjallar um lífsstarfið og lífið með ísbjörnum á hinu fagra Grænlandi í Ægisviðtali
Fleiri færslur
Share by: