logo

Súlur stálgrindarhús ehf. vinnur að uppsetningu á nýrri vélaskemmu í Hlíðarfjalli – Vaxandi eftirspurn eftir stálgrindarhúsum á Íslandi

2. október 2024
Fyrirtækið Súlur Stálgrindarhús ehf. er dótturfyrirtæki Slippsins Akureyri sem stofnað var fyrir ári síðan. Undanfari stofnunar fyrirtækisins var viðamikið verkefni sem Slippurinn hafði með höndum við að reisa nýbyggingu Húsasmiðjunnar á Selfossi og var í framhaldinu tekin ákvörðun um að stofna fyrirtæki um verkefni í byggingariðnaði með sérstakri áherslu á stálgrindarhús, enda mikil þekking á stáli innan samstæðunnar. Súlur Stálgrindarhús ehf. býður tilbúin innflutt stálgrindarhús á íslenskum markaði og er þessa dagana að reisa 800 fermetra vélaskemmu á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Kristján H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir talsverða eftirspurn og næstu verkefni þegar komin í hönnunar- og undirbúningsferli. 

18 vikna afgreiðslutími frá Kína
Stálgrindarhúsin koma hingað til lands tilbúin til uppsetningar, bæði stálvirkið sjálft, yleiningar, gluggar og hurðir. Húsin eru framleidd í Kína og eru CE vottuð og segir Kristján að reikna megi með um 18 vikna tíma frá því allar arkitektateikningar liggja fyrir þar til húsin eru komin á verkstað á Íslandi, tilbúin til uppsetningar. 
„Til að enginn vafi leiki á gæðum þessara húsa þá fengum við óháða alþjóðlega þýska vottunarstofu, TÜV SÜD, til að taka út framleiðslu vélaskemmunar þegar það var í framleiðslu í Kína og sú úttekt staðfesti að húsin eru í hæsta gæðaflokki. Enda sjáum við það í uppsetningarvinnunni núna að það stenst allt upp á punkt og prik,“ segir Kristján en sjálfur er hann menntaður húsasmiður og byggingafræðingur en starfaði áður um nokkurra ára skeið hjá Slippnum Akureyri.

Lausn sem er vel samkeppnisfær 
„Við fáum mikið af fyrirspurnum um þessar lausnir okkar víða að úr atvinnulífinu, bæði frá viðskiptavinum til sjávar og sveita,“ segir Kristján en þyngri fjármögnun vegna hárra vaxta segir hann helst birtast í því að undirbúningsferli framkvæmda taki lengri tíma en áður. Markaðurinn sé hins vegar augljóslega fyrir hendi. 
„Fyrirspurnir hafa komið til okkar að undanförnu um smærri sem stærri hús, allt upp í um 3.500 fermetra að stærð. Við getum boðið allar stærðir stálgrindarhúsa og í reynd eru engin mörk á því. Ég hef sjálfur skoðað verksmiðjuna í Kína og veit að þar er núna verið að framleiða hús sem er 20.000 fermetrar að stærð svo að fyrirtækið hefur vítt framleiðslusvið,“ segir Kristján. Aðspurður segir hann þróun í verði á stáli og flutningum í rétta átt að undanförnu og að það styrkir samkeppnisstöðu fyrirtækisins enn frekar. 
„Þetta eru hús sem eru mjög vel samkeppnisfær á íslenskum markaði og góður valkostur fyrir fjölbreytta starfsemi,“ segir Kristján. 

Stefnt á verklok í Hlíðarfjalli í nóvember
Á næstu dögum verður lokið við uppsetningu stálvirkisins í áhaldahúsinu í Hlíðarfjalli og þá tekur við klæðning yleininga og frágangur. Kristján segist vonast til að veðurguðirnir verði framkvæmdinni hliðhollir í haust og að hægt verði að ljúka við húsið í nóvembermánuði. Upphaflega var ætlunin að reisa húsið haustið 2023 en tafir á öðrum verkþáttum urðu til þess að samkomulag var við verkkaupa um að seinka framkvæmdinni um eitt ár. 
„Hönnunarferli hússins seinkaði í fyrra og steypa á sökklum og millilofti hófst ekki fyrr en í byrjun júní í sumar en stálgrindin kom til landsins í júní og yleiningarnar í ágúst. Við hófum síðan vinnu við uppsetninguhússins strax og allar undirstöður voru tilbúnar,“ segir Kristján en auk starfsmanna Súlna Stálgrindarhúsa ehf. koma starfsmenn frá Slippnum Akureyri að uppsetningarvinnunni. Kristján segir fyrirtækin þannig geta lagt saman krafta sína í verkefnum þegar á þarf að halda. 
„Okkar séráhersla er á stálgrindarhúsin en samt sem áður tökum við fjölbreytt önnur verkefni að okkur á byggingarsviðinu. Dæmi þar um er umsjón með breytingum á húsnæði fyrir frumkvöðlasetrið Drift EA í Landsbankahúsinu við Ráðhústorg sem smiðir á okkar vegum eru að ljúka um þessar mundir. Við erum því nýtt félag á byggingamarkaði og getum boðið okkar þjónustu og hús til viðskiptavina hvar sem er á landinu,“ segir Kristján H. Kristjánsson. 
6. janúar 2025
21. desember 2024
Súlur stálgrindarhús ehf., dótturfélag Slippsins Akureyri ehf., hefur lokað nýrri vélaskemmu sem fyrirtækið reisir fyrir Akureyrarbæ á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Um er að ræða 800 fermetra hús að grunnfleti en því til viðbótar er starfsmannaaðstaða á tveimur hæðum í húsinu og heildargólfflötur er því um 1000 fermetrar. Samhliða lokafrágangi utanhúss hefst vinna við innahússfrágang strax eftir áramót. Krefjandi aðstæður í Hlíðarfjalli Súlur stálgrindarhús ehf. hefur með höndum allt stálvirki framkvæmdarinnar, þ.e. húsið sjálft frágengið með klæðningum, hurðum, gluggum og öðru tilheyrandi. Húsið er vottuð framleiðsla frá Kína og hófst uppsetning í september síðastliðnum. Kristján H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlna stálgrindarhúsa ehf., segir þetta stóran áfanga en þetta er jafnframt fyrsta húsið sem fyrirtækið reisir frá grunni. „Af ýmsum ástæðum, tíðarfari í vor og fleiru, hófst vinna annarra verktaka við undirstöður ekki fyrr en komið var fram í júní og því gátum við ekki byrjað á uppsetningu hússins fyrr en í september. Aðstæður fyrir svona framkvæmd eru mjög krefjandi í Hlíðarfjalli og mjög algengt að hér niðri í bæ sé logn en stífur vindur á sama tíma í Hlíðarfjalli og ekki hægt að vinna með krana og við hífingar eins og svona framkvæmd krefst. En þrátt fyrir frátafir náum við að loka húsinu á þeim tíma sem við áætluðum þegar við hófumst handa í september og ég er mjög ánægður með það. Sú áætlun hefði ekki gengið eftir nema vegna þess samhenta og öfluga starfsmannahóps sem við erum með og þess baklands sem við höfum á öllum fagsviðum málmiðnaðar hjá Slippnum,“ segir Kristján. Lokafrágangur við glugga, flasningar og þess háttar verður strax eftir áramót og mun ljúka í janúar en Kristján segir að bíða þurfi þess til næsta sumars að verktaki við uppsteypu ljúki við að steypa undirstöður fyrir stiga og svalir, sem verða þá síðustu stáleiningarnar sem húsinu tilheyra. Verður bylting fyrir skíðasvæðið Kristján Snorrason, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ, segir að nýja vélaskemman komi til með að breyta miklu fyrir starfsmenn og starfsemina í Hlíðarfjalli. „Með tilkomu hússins verður hægt að geyma alla fjóra troðara skíðasvæðisins innandyra en á gamla verkstæðinu var aðeins hægt að hafa tvo troðara inni í einu. Húsið er líka staðsett nær skíðasvæðinu sjálfu og greiðari leið fyrir troðarana beint á skíðasvæðið, auk þess sem þeir eru þá ekki að þvera umferð skíðafólks eins og hefur verið. Starfsmannaaðstaða er á efri hæð í húsinu og þangað kemur skíðagæslan til með að flytjast í húsið, þ.e. vöktun á lyftunum og svæðinu í heild. Húsið er þannig staðsett að úr því er mun betra að hafa yfirsýn á svæðið en úr skíðaskálanum þar sem eftirlitið hefur verið,“ segir Kristján. Hann segist ekki reikna með að nýja húsið verði að fullu tekið í notkun á þessum skíðavetri en áhersla verði lögð á að geta sem fyrst notað húsið til að hýsa troðarana.
18. desember 2024
Um daginn auglýstum við sérstakt tilboð fyrir allar DNG R1 færavindur keyptar árið 2022 eða síðar. Eigendur þessara færavinda geta fengið hugbúnaðaruppfærslu og yfirferð án endurgjalds. Uppfærslan inniheldur umfangsmiklar endurbætur sem auka bæði notendaupplifun og áreiðanleika. Viðbrögðin hafa verið frábær, og nú þegar hafa margir nýtt sér þetta tækifæri. Stór hluti þessara færavinda er þegar kominn í þjónustuferlið hjá okkur, þar sem hugbúnaður er uppfærður og tækin yfirfarin af fagfólki. Þetta boð gildir fram á næsta ár, nánar tiltekið til 15. apríl 2024. Við hvetjum alla eigendur R1 færavinda til að nýta sér þessa þjónustu. Hér að neðan má sjá mynd af færavindum í þjónustuferlinu okkar.
Árni F. Antonsson, skipasmiður og verkstjóri hjá Slippnum Akureyri
byrjaði 14 ára hjá fyrirtækinu og
18. desember 2024
Árni F. Antonsson, skipasmiður og verkstjóri hjá Slippnum Akureyri byrjaði 14 ára hjá fyrirtækinu og hefur stýrt upptöku á um 3000 skipum og bátum síðustu þrjá áratugina. Hann spjallar um lífsstarfið og lífið með ísbjörnum á hinu fagra Grænlandi í Ægisviðtali
Fleiri færslur
Share by: