logo

Fréttir

Við uppfærum reglulega með markverðum viðburðum, upplýsingum um nýjar vörur, kynningum og fleirir atriðum sem snúa að daglegum rekstri Slippsins og DNG

20. mars 2025
Smíði búnaðarins er á lokametrunum og fljótlega munum við hefjast handa við uppsetningu búnaðarins um borð í skipinu. „Smíðin á vinnslubúnaðinum hefur gengið vel og við stefnum á að skipið verði klárt fyrir páska segir Magnús Blöndal, sviðsstjóri DNG Vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri. „Starfsfólk Hraðfrystihússins hafa lagt fram mikið af gagnlegum ábendingum í hönnunarferlinu sem skipta sköpum fyrir lokaútfærsluna." Hildur SH 777, sem var smíðuð í Danmörku árið 2019, er 33,25 metra löng og 9,4 metra breið. Þetta öfluga skip er sérhannað fyrir bæði tog- og dragnótaveiðar og gegnir lykilhlutverki í bolfiskveiðum fyrirtækisins. Örvar Ólafsson, útgerðarstjóri Hraðfrystihúss Hellissands, segir miklar vonir bundnar við nýja vinnsludekkið: „Við búumst við góðri aukningu í afköstum og betri nýtingu aflans. Samstarfið við Slippinn Akureyri hefur gengið afar vel og við hlökkum til að hefja veiðar með nýjum vinnslubúnaði."  Fjárfestingin í nýja vinnsludekkinu samræmist framtíðarsýn Hraðfrystihúss Hellissands um sjálfbæra og hagkvæma vinnslu sjávarafurða, sem hefur einkennt starfsemi fyrirtækisins í meira en sjö áratugi. Slippurinn Akureyri hefur áratuga reynslu í hönnun og framleiðslu vinnslubúnaðar fyrir fiskiskip og leggur áherslu á gæðalausnir sem styðja við umhverfisvæna og arðbæra útgerð.
11. mars 2025
Í desember og janúar var lokið við uppsetningu nýs búnaðar úr vörulínu DNG Vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri ehf. hjá tveimur viðskiptavinum, annars vegar í lifrarvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Súðavík og hins vegar í bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis í Sandgerði. Óli Björn Ólafsson, verkefnastjóri hjá starfsstöð Slipp­ins Akureyri í Hafnarfirði, segir verkefnin hafa gengið mjög vel og að þau endurspegli það víðfeðma svið í hönnun, framleiðslu og uppsetningu vinnslubúnaðar sem fyrirtækið þjónustar. Sérhæfður búnaður fyrir lifrarvinnslu HG Í Súðavík hefur niðursuða á þorsklifur verið starfrækt um 20 ára skeið en þar áður var rekin rækjuvinnsla í húsinu. Hraðfrystihúsið-Gunnvör starfrækir lifrarniðursuðuna en DNG Vinnslubúnaður annaðist hönnun, framleiðslu og smíði á sérstöku hitabaði, síutromlu, varmaskiptum og hitastýringum en hitastýring er einn af lykilþáttum í lifrarvinnslu sem þessari. „Þetta verkefni er dæmi um sérhæfðan búnað í okkar fjölbreyttu vörulínu. Við tökumst á við margs konar verkefni í smíði búnaðar fyrir vinnslu sjávarfangs, hvort heldur er vinnsla botnfisks, eldisfisks, rækju eða sérhæfðari vinnsla á borð við hrogn og lifur,” segir Óli Björn en uppsetningu búnaðarins í Súðavík lauk nú í janúarmánuði. „Við erum afar stolt af þessu verkefni í Súðavík og þökkum Hraðfrystihúsinu-Gunnvör fyrir það traust sem fyrirtækið sýndi okkur í því.” Ný snyrtilína í bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis Önnur sérhæfð vinnsla er bleikjuvinnsla Samherja fiskeldis í Sandgerði en þar var lokið uppsetningu á nýrri snyrtilínu frá DNG Vinnslubúnaði í desembermánuði. Þetta er fjórða snyrtilínan í húsinu en þær fyrri voru framleiddar af Martaki í Grindavík, forvera núverandi starfsstöðvar Slipp­ins Akureyri í Hafnarfirði. Óli Björn segir að markmiðið með þessari línu sé að mæta aukinni framleiðslu í húsinu sem nemur 1000-1200 tonnum á ári en ársframleiðsla hefur verið um 3000 tonn síðustu ár. Sem kunnugt er er bleikjuvinnslan Samherja fiskeldis í Sandgerði ein sú fullkomnasta í heimi en þar eru framleiddar bæði ferskar bleikjuafurðir og laustfrystar vakúmpakkaðar afurðir. „Við erum mjög ánægð með útkomu nýju snyrtilínunnar í Sandgerði. Það er alltaf krefjandi að koma fyrir nýjum búnaði inni í vinnslu og mikilvægt að menn séu hugmyndaríkir að nýta rýmið vel. Bleikjuvinnslan í Sandgerði er hátæknivinnsla sem er með þessum búnaði frá okkur orðin enn betur búin,” segir Óli Björn.
10. mars 2025
Með þessu samstarfi munu Slippurinn Akureyri og Optimar vinna náið saman að þjónustu og endurnýjun skipa. Jafnframt munu þau nýta sér sérþekkingu hvors annars til að bjóða fjölbreyttari vörur og lausnir sérsniðnar að fisk- og matvælaiðnaði. – Með sameiginlegu átaki styrkjum við þjónustunet okkar og fáum beinan aðgang að háþróaðri sérfræðiþekkingu, segja Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins Akureyri, og Siggi Ólason, framkvæmdastjóri Optimar. Styrking framtíðarsýnar og skuldbindingar Þetta stefnumarkandi samstarf gerir Optimar og Slippnum Akureyri kleift að bjóða heildstæðari lausnir. Það styrkir framtíðarsýn þeirra og skuldbindingu til þróunar og hönnunar á hátæknivæddum vinnslubúnaði og auðveldar framleiðslu á milli landa. – Við aukum samstarf okkar um þjónustu og vöruframboð á skilvirkan hátt og tryggjum þannig að viðskiptavinir okkar fái bestu mögulegu þjónustu, segir Siggi Ólason. - Við hjá Slippnum Akureyri tökum undir þessa framtíðarsýn og hlökkum til að sjá árangurinn af því að sameina sérþekkingu og reynslu til að byggja upp enn öflugra og samkeppnishæfara fyrirtæki. Optimar er viðurkenndur frumkvöðull í sjávarútvegi, og við erum spennt að vinna enn nánar saman að lausnum fyrir viðskiptavini okkar, segir Páll Kristjánsson.
10. febrúar 2025
„Við erum stolt af þeim vexti sem hefur verið hjá okkur á undaförnum árum og verður fyrirsjáanlega á næstu misserum í framleiðslu fiskvinnslubúnaðar. Verkefnastaðan er mjög góð fyrir árið 2025 og við erum að vinna af fullum krafti í áhugaverðum verkefnum fyrir árið 2026,“ segir Magnús Blöndal, sviðsstjóri DNG vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri ehf. „Við höfum alltaf verið sterkir í vinnslubúnaði í skipum en síðustu árin höfum við einnig sótt fram með lausnir fyrir landvinnslur með góðum árangri,“ bætir Magnús við. Mikil áhersla á þróun „Aukin áhersla og fjárfesting í þróun hefur skilað okkur góðum árangri og er- um við með mikla þekkingu og reynslu innan okkar raða í hráefnismeðferð og erum að vinna að fjölbreyttum og krefjandi verkefnum fyrir viðskiptavini.“ Stærð verkefna er mismunandi, í sumum tilfellum er um að ræða viðameiri vinnslukerfi sem eiga sér talsverðan aðdraganda og undirbúning en Magnús segir að til fyrirtækisins sé líka leitað með verkefni sem leysa þurfi fyrir viðskiptavini á stuttum tíma. Fjölbreytnin í verkefnum er því mikil en meðal kerfa sem DNG vinnslubúnaður hefur verið að þróa á síðustu árum nefnir Magnús sjálfvirk lestarkerfi, blæðingarkerfi í fiskiskipum og flokkun á hráefni, að ógleymdu framleiðslukerfinu Promas sem er hugbúnaður fyrir vinnslukerfi DNG bæði á landi og sjó. Tekjur að aukast í erlendum verkefnum Magnús segir að tekjur af verkefnum DNG vinnslubúnaðar í erlendum verkefnum fari vaxandi og þá er bæði um að ræða lausnir í landi og á sjó. „Í mörgum tilfellum er um að ræða verkefni þar sem við smíðum búnaðinn hér heima og förum síðan erlendis í uppsetningu og uppkeyrslu,“ segir Magnús. Hann segir mikla samkeppni á þessu sviði. „Já, samkeppnin er mikil, bæði innanlands og við erum líka að keppa við erlend fyrirtæki á þessu sviði. Samkeppni er af hinu góða og hún snýst ekki aðeins um verð heldur líka lausnir og ekki síst þekkingu og þjónustu. Við erum með mjög góða samkeppnisstöðu með þá reynslu og þekkingu sem við höfum á að byggja,“ segir Magnús Blöndal.
6. janúar 2025
21. desember 2024
Súlur stálgrindarhús ehf., dótturfélag Slippsins Akureyri ehf., hefur lokað nýrri vélaskemmu sem fyrirtækið reisir fyrir Akureyrarbæ á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli. Um er að ræða 800 fermetra hús að grunnfleti en því til viðbótar er starfsmannaaðstaða á tveimur hæðum í húsinu og heildargólfflötur er því um 1000 fermetrar. Samhliða lokafrágangi utanhúss hefst vinna við innahússfrágang strax eftir áramót. Krefjandi aðstæður í Hlíðarfjalli Súlur stálgrindarhús ehf. hefur með höndum allt stálvirki framkvæmdarinnar, þ.e. húsið sjálft frágengið með klæðningum, hurðum, gluggum og öðru tilheyrandi. Húsið er vottuð framleiðsla frá Kína og hófst uppsetning í september síðastliðnum. Kristján H. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Súlna stálgrindarhúsa ehf., segir þetta stóran áfanga en þetta er jafnframt fyrsta húsið sem fyrirtækið reisir frá grunni. „Af ýmsum ástæðum, tíðarfari í vor og fleiru, hófst vinna annarra verktaka við undirstöður ekki fyrr en komið var fram í júní og því gátum við ekki byrjað á uppsetningu hússins fyrr en í september. Aðstæður fyrir svona framkvæmd eru mjög krefjandi í Hlíðarfjalli og mjög algengt að hér niðri í bæ sé logn en stífur vindur á sama tíma í Hlíðarfjalli og ekki hægt að vinna með krana og við hífingar eins og svona framkvæmd krefst. En þrátt fyrir frátafir náum við að loka húsinu á þeim tíma sem við áætluðum þegar við hófumst handa í september og ég er mjög ánægður með það. Sú áætlun hefði ekki gengið eftir nema vegna þess samhenta og öfluga starfsmannahóps sem við erum með og þess baklands sem við höfum á öllum fagsviðum málmiðnaðar hjá Slippnum,“ segir Kristján. Lokafrágangur við glugga, flasningar og þess háttar verður strax eftir áramót og mun ljúka í janúar en Kristján segir að bíða þurfi þess til næsta sumars að verktaki við uppsteypu ljúki við að steypa undirstöður fyrir stiga og svalir, sem verða þá síðustu stáleiningarnar sem húsinu tilheyra. Verður bylting fyrir skíðasvæðið Kristján Snorrason, verkefnastjóri nýframkvæmda hjá Akureyrarbæ, segir að nýja vélaskemman komi til með að breyta miklu fyrir starfsmenn og starfsemina í Hlíðarfjalli. „Með tilkomu hússins verður hægt að geyma alla fjóra troðara skíðasvæðisins innandyra en á gamla verkstæðinu var aðeins hægt að hafa tvo troðara inni í einu. Húsið er líka staðsett nær skíðasvæðinu sjálfu og greiðari leið fyrir troðarana beint á skíðasvæðið, auk þess sem þeir eru þá ekki að þvera umferð skíðafólks eins og hefur verið. Starfsmannaaðstaða er á efri hæð í húsinu og þangað kemur skíðagæslan til með að flytjast í húsið, þ.e. vöktun á lyftunum og svæðinu í heild. Húsið er þannig staðsett að úr því er mun betra að hafa yfirsýn á svæðið en úr skíðaskálanum þar sem eftirlitið hefur verið,“ segir Kristján. Hann segist ekki reikna með að nýja húsið verði að fullu tekið í notkun á þessum skíðavetri en áhersla verði lögð á að geta sem fyrst notað húsið til að hýsa troðarana.
18. desember 2024
Um daginn auglýstum við sérstakt tilboð fyrir allar DNG R1 færavindur keyptar árið 2022 eða síðar. Eigendur þessara færavinda geta fengið hugbúnaðaruppfærslu og yfirferð án endurgjalds. Uppfærslan inniheldur umfangsmiklar endurbætur sem auka bæði notendaupplifun og áreiðanleika. Viðbrögðin hafa verið frábær, og nú þegar hafa margir nýtt sér þetta tækifæri. Stór hluti þessara færavinda er þegar kominn í þjónustuferlið hjá okkur, þar sem hugbúnaður er uppfærður og tækin yfirfarin af fagfólki. Þetta boð gildir fram á næsta ár, nánar tiltekið til 15. apríl 2024. Við hvetjum alla eigendur R1 færavinda til að nýta sér þessa þjónustu. Hér að neðan má sjá mynd af færavindum í þjónustuferlinu okkar.
Árni F. Antonsson, skipasmiður og verkstjóri hjá Slippnum Akureyri
byrjaði 14 ára hjá fyrirtækinu og
18. desember 2024
Árni F. Antonsson, skipasmiður og verkstjóri hjá Slippnum Akureyri byrjaði 14 ára hjá fyrirtækinu og hefur stýrt upptöku á um 3000 skipum og bátum síðustu þrjá áratugina. Hann spjallar um lífsstarfið og lífið með ísbjörnum á hinu fagra Grænlandi í Ægisviðtali
Fleiri fréttir
Share by: