4602900
slipp@slipp.is
„Við erum stolt af þeim vexti sem hefur verið hjá okkur á undaförnum árum og verður fyrirsjáanlega á næstu misserum í framleiðslu fiskvinnslubúnaðar. Verkefnastaðan er mjög góð fyrir árið 2025 og við erum að vinna af fullum krafti í áhugaverðum verkefnum fyrir árið 2026,“ segir Magnús Blöndal, sviðsstjóri DNG vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri ehf.
„Við höfum alltaf verið sterkir í vinnslubúnaði í skipum en síðustu árin höfum við einnig sótt fram með lausnir fyrir landvinnslur með góðum árangri,“ bætir Magnús við.
„Aukin áhersla og fjárfesting í þróun hefur skilað okkur góðum árangri og er- um við með mikla þekkingu og reynslu innan okkar raða í hráefnismeðferð og erum að vinna að fjölbreyttum og krefjandi verkefnum fyrir viðskiptavini.“
Stærð verkefna er mismunandi, í sumum tilfellum er um að ræða viðameiri vinnslukerfi sem eiga sér talsverðan aðdraganda og undirbúning en Magnús segir að til fyrirtækisins sé líka leitað með verkefni sem leysa þurfi fyrir viðskiptavini á stuttum tíma. Fjölbreytnin í verkefnum er því mikil en meðal kerfa sem DNG vinnslubúnaður hefur verið að þróa á síðustu árum nefnir Magnús sjálfvirk lestarkerfi, blæðingarkerfi í fiskiskipum og flokkun á hráefni, að ógleymdu framleiðslukerfinu Promas sem er hugbúnaður fyrir vinnslukerfi DNG bæði á landi og sjó.
Magnús segir að tekjur af verkefnum DNG vinnslubúnaðar í erlendum verkefnum fari vaxandi og þá er bæði um að ræða lausnir í landi og á sjó.
„Í mörgum tilfellum er um að ræða verkefni þar sem við smíðum búnaðinn hér heima og förum síðan erlendis í uppsetningu og uppkeyrslu,“ segir Magnús.
Hann segir mikla samkeppni á þessu sviði.
„Já, samkeppnin er mikil, bæði innanlands og við erum líka að keppa við erlend fyrirtæki á þessu sviði. Samkeppni er af hinu góða og hún snýst ekki aðeins um verð heldur líka lausnir og ekki síst þekkingu og þjónustu. Við erum með mjög góða samkeppnisstöðu með þá reynslu og þekkingu sem við höfum á að byggja,“ segir Magnús Blöndal.