🎉 Árni Antonsson lætur af störfum hjá Slippnum eftir 50 farsæl ár!
29. nóvember 2024
Í dag er síðasti starfsdagur Árna Freys Antonssonar eftir farsæl 50 ár hjá Slippnum.

Árni, sem fagnaði 65 ára afmæli þann 16. nóvember, hefur starfað allan sinn starfsferil hjá Slippnum.
Hann hefur ekki aðeins verið ómissandi starfsmaður heldur tengist fjölskylda hans Slippnum sterkum böndum. Pabbi Árna vann hér árum saman, og tengdabörn ásamt öðrum skyldmennum hafa fylgt í hans fótspor með að starfa hjá Slippnum. Árni hóf störf sem verkamaður hjá Slippnum árið 1974, lærði tréskipasmíði og varð verkstjóri verkamanna árið 1994 – hlutverk sem hann hefur sinnt með festu og ástríðu í heil 30 ár.
Ástríða Árna fyrir upptöku og setningu skipa er vel þekkt. Hver man ekki eftir honum í stóru stígvélunum og gula hjálminum – alltaf tilbúinn að takast á við næsta verkefni með sínum einstaka hætti!
Við þökkum Árna af heilum hug fyrir ómetanlegt framlag hans til Slippsins og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni.
🎈 Takk fyrir allt, Árni! 🙌

Slippurinn Akureyri og Íslenska Gámafélagið (ÍGF) hafa gert með sér samning um heildstæða sorphirðuþjónustu með skýra áherslu á flokkun og aukna endurvinnslu. ÍGF mun annast sorphirðu hjá fyrirtækinu og beita lausnum sem draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar og stuðla að sjálfbærni í rekstri. Innleiðing nýs kerfis hefst eftir sumarleyfi starfsfólks, en stefnt er að fullri útfærslu í haust. Með betri flokkun og meðhöndlun úrgangs má bæði auka nýtingu hráefna, draga úr orkunotkun og minnka mengun. Á sama tíma skapast aukin hagkvæmni þar sem förgunarkostnaður fer hækkandi.