Fréttir & Tilkynningar

20. mars 2025
Smíði búnaðarins er á lokametrunum og fljótlega munum við hefjast handa við uppsetningu búnaðarins um borð í skipinu. „Smíðin á vinnslubúnaðinum hefur gengið vel og við stefnum á að skipið verði klárt fyrir páska segir Magnús Blöndal, sviðsstjóri DNG Vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri. „Starfsfólk Hraðfrystihússins hafa lagt fram mikið af gagnlegum ábendingum í hönnunarferlinu sem skipta sköpum fyrir lokaútfærsluna." Hildur SH 777, sem var smíðuð í Danmörku árið 2019, er 33,25 metra löng og 9,4 metra breið. Þetta öfluga skip er sérhannað fyrir bæði tog- og dragnótaveiðar og gegnir lykilhlutverki í bolfiskveiðum fyrirtækisins. Örvar Ólafsson, útgerðarstjóri Hraðfrystihúss Hellissands, segir miklar vonir bundnar við nýja vinnsludekkið: „Við búumst við góðri aukningu í afköstum og betri nýtingu aflans. Samstarfið við Slippinn Akureyri hefur gengið afar vel og við hlökkum til að hefja veiðar með nýjum vinnslubúnaði."  Fjárfestingin í nýja vinnsludekkinu samræmist framtíðarsýn Hraðfrystihúss Hellissands um sjálfbæra og hagkvæma vinnslu sjávarafurða, sem hefur einkennt starfsemi fyrirtækisins í meira en sjö áratugi. Slippurinn Akureyri hefur áratuga reynslu í hönnun og framleiðslu vinnslubúnaðar fyrir fiskiskip og leggur áherslu á gæðalausnir sem styðja við umhverfisvæna og arðbæra útgerð.
11. mars 2025
Í desember og janúar var lokið við uppsetningu nýs búnaðar úr vörulínu DNG Vinnslubúnaðar hjá Slippnum Akureyri ehf. hjá tveimur viðskiptavinum, annars vegar í lifrarvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Súðavík og hins vegar í bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis í Sandgerði. Óli Björn Ólafsson, verkefnastjóri hjá starfsstöð Slipp­ins Akureyri í Hafnarfirði, segir verkefnin hafa gengið mjög vel og að þau endurspegli það víðfeðma svið í hönnun, framleiðslu og uppsetningu vinnslubúnaðar sem fyrirtækið þjónustar. Sérhæfður búnaður fyrir lifrarvinnslu HG Í Súðavík hefur niðursuða á þorsklifur verið starfrækt um 20 ára skeið en þar áður var rekin rækjuvinnsla í húsinu. Hraðfrystihúsið-Gunnvör starfrækir lifrarniðursuðuna en DNG Vinnslubúnaður annaðist hönnun, framleiðslu og smíði á sérstöku hitabaði, síutromlu, varmaskiptum og hitastýringum en hitastýring er einn af lykilþáttum í lifrarvinnslu sem þessari. „Þetta verkefni er dæmi um sérhæfðan búnað í okkar fjölbreyttu vörulínu. Við tökumst á við margs konar verkefni í smíði búnaðar fyrir vinnslu sjávarfangs, hvort heldur er vinnsla botnfisks, eldisfisks, rækju eða sérhæfðari vinnsla á borð við hrogn og lifur,” segir Óli Björn en uppsetningu búnaðarins í Súðavík lauk nú í janúarmánuði. „Við erum afar stolt af þessu verkefni í Súðavík og þökkum Hraðfrystihúsinu-Gunnvör fyrir það traust sem fyrirtækið sýndi okkur í því.” Ný snyrtilína í bleikjuvinnslu Samherja fiskeldis Önnur sérhæfð vinnsla er bleikjuvinnsla Samherja fiskeldis í Sandgerði en þar var lokið uppsetningu á nýrri snyrtilínu frá DNG Vinnslubúnaði í desembermánuði. Þetta er fjórða snyrtilínan í húsinu en þær fyrri voru framleiddar af Martaki í Grindavík, forvera núverandi starfsstöðvar Slipp­ins Akureyri í Hafnarfirði. Óli Björn segir að markmiðið með þessari línu sé að mæta aukinni framleiðslu í húsinu sem nemur 1000-1200 tonnum á ári en ársframleiðsla hefur verið um 3000 tonn síðustu ár. Sem kunnugt er er bleikjuvinnslan Samherja fiskeldis í Sandgerði ein sú fullkomnasta í heimi en þar eru framleiddar bæði ferskar bleikjuafurðir og laustfrystar vakúmpakkaðar afurðir. „Við erum mjög ánægð með útkomu nýju snyrtilínunnar í Sandgerði. Það er alltaf krefjandi að koma fyrir nýjum búnaði inni í vinnslu og mikilvægt að menn séu hugmyndaríkir að nýta rýmið vel. Bleikjuvinnslan í Sandgerði er hátæknivinnsla sem er með þessum búnaði frá okkur orðin enn betur búin,” segir Óli Björn.
10. mars 2025
Með þessu samstarfi munu Slippurinn Akureyri og Optimar vinna náið saman að þjónustu og endurnýjun skipa. Jafnframt munu þau nýta sér sérþekkingu hvors annars til að bjóða fjölbreyttari vörur og lausnir sérsniðnar að fisk- og matvælaiðnaði. – Með sameiginlegu átaki styrkjum við þjónustunet okkar og fáum beinan aðgang að háþróaðri sérfræðiþekkingu, segja Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins Akureyri, og Siggi Ólason, framkvæmdastjóri Optimar. Styrking framtíðarsýnar og skuldbindingar Þetta stefnumarkandi samstarf gerir Optimar og Slippnum Akureyri kleift að bjóða heildstæðari lausnir. Það styrkir framtíðarsýn þeirra og skuldbindingu til þróunar og hönnunar á hátæknivæddum vinnslubúnaði og auðveldar framleiðslu á milli landa. – Við aukum samstarf okkar um þjónustu og vöruframboð á skilvirkan hátt og tryggjum þannig að viðskiptavinir okkar fái bestu mögulegu þjónustu, segir Siggi Ólason. - Við hjá Slippnum Akureyri tökum undir þessa framtíðarsýn og hlökkum til að sjá árangurinn af því að sameina sérþekkingu og reynslu til að byggja upp enn öflugra og samkeppnishæfara fyrirtæki. Optimar er viðurkenndur frumkvöðull í sjávarútvegi, og við erum spennt að vinna enn nánar saman að lausnum fyrir viðskiptavini okkar, segir Páll Kristjánsson.
Fleiri fréttir

Í sviðsljósinu

DNG R1 Færavindan

Færavindur DNG hafa leikið stórt hlutverk á undanförnum árum í framþróun handfæraveiða og eru mikil tímamót nú þegar fyrirtækið er komið fram með nýja kynslóð af vindu sem heitir R1 en næsta kynslóð á undan var C6000 vindan sem kom fyrst á markað árið 1995.


Mótor vindunnar er sérhannaður af DNG fyrir færaveiðar, ekki er þörf fyrir kúplingu eða gír heldur er girnishjólið fest beint á mótoröxulinn. Mótorinn er svokallaður burstalaus þrepamótor. Engin kol eru inn á anker mótorsins heldur er hann útbúinn síseglum. Slitfletir eru einungis á tveimur legum í öxulendunum og viðhald þess í lágmarki.

Lesa nánar
Share by: