DNG R1 færavindur rokseljast á ICEFISH 2024

Pétur Veigar Karlsson sölufultrúi DNG Færavinda
Pétur Veigar Karlsson sölufultrúi DNG Færavinda

Nýja færavindan frá DNG Færavindum, sem heitir DNG R1, hefur rokselst á IceFish 2024 sjávarútvegssýningunni sem lýkur í dag. Að sögn Péturs Veigars Karlssonar sölufulltrúa DNG Færavinda hafa í heildina selst á fjórða tug vinda á sýningunni og straumur manna verið í bás DNG Færavinda á sýningunni.

Pétur segir að nú þegar hafi selst um 20 færavindur og í heildina geti þetta orðið 34 vindur þegar sýningunni lýkur seinna í dag. Það sé mikill áhugi á nýju vindunni og þessi sala hafi farið fram í gær og í dag.

„Hjá DNG Færavindum fengum við til okkar í básinn yfir 100 manns í gær og annað eins í dag. Mest eru þetta strandveiðimenn sem koma til okkar en líka þeir sem eru á kvóta. Líklega er 90% okkar gesta hjá DNG Færavindum strandveiðimenn,” segir Pétur Veigar.

Nýlega kom ný vinda á markaðinn, R1, sem leysir af hólmi DNG 6000 vinduna. Sú vinda var í framleiðslu frá 1995 til 2022. „Það er búið að nútímavæða vinduna með R1 útgáfunni. Það er Wi-Fi tenging á henni og þær tala saman auk þess sem hún er með öðrum skjá og mun betra viðmóti. Við reynum líka að halda uppi góðri þjónustu og allt skilar þetta sér í aukinni eftirspurn,” segir Pétur Veigar.

Fjórar færavindur eru leyfðar í strandveiðibátum og dæmi margir eru að kaupa fleiri en eina. Einum var til dæmis seldar fjórar vindur í einu og svo komu aðilar á básinn í morgun og keyptu fjórar vindur á bát sem þeir eru með í smíðum.

Menn þurfa þó ekki að örvænta því ennþá á DNG Færavindur 50 stykki á lager og framleiðslugetan norður á Akureyri er líka góð, eða allt að 200 vindur á ári. Verið er að auka framleiðslugetuna töluvert fyrir næsta ár. En vindurnar seljast líka út fyrir landsteinana, mest til Noregs, Skotlands og norður Ameríku. 

Nánari upplýsingar: petur@dng.is